Jónas Karlsson.

Jónas Karlsson.

Prentrún

Reykjavík 1970–2019

Jónas Karlsson (1941–) nam setningu í Prentsmiðju Þjóðviljans 1958–1962. Hann vann síðan hjá Prentsmiðju Þjóðviljans, Ísafold, Prentsmiðju Alþýðublaðsins, Prentun og Leiftri. Þá stofnaði hann prentsmiðjuna Prentrúnu árið 1970, við sameiningu prentsmiðjanna Prentunar og Ásrúnar og hefur Jónas verið framkvæmdastjóri hennar síðan. Prentrún var fyrst til húsa að Laugavegi 178 en flutti að Funahöfða 10 í Reykjavík árið 1978 og þar var hún staðsett í rúm 40 ár.

Jónas Karlsson setjari var síðasti nemi Stefáns Ögmundssonar sem var prentsmiðjustjóri Þjóðviljans á þeim árum. Hann segist mikið hafa lært af meistara sínum og þeim öðrum sósíalistum sem hann vann fyrir. Hann prentaði t.d. ávallt tímaritið Rétt, Einars Olgeirssonar (1902–1993) og fleiri rit sósíalista. Það mætti líka minnast á bókaútgáfu flokksins sem Jónas var stór hluthafi í, en það var Minnisbókin Fjölvís. Stofnendur hennar voru Ingi R. Helgason (1924–2000), Halldór Jakobsson (1917–2008) og Eiður Bergmann (1915–1999). Hún hefur ávallt átt miklum vinsældum að fagna og hefur komið út í meira en 60 ár. Árið 2015 sameinuðust fyrirtækin Fjölvís og Prent­rún en árið 2019 var starfseminni hætt og fyrirtækið lagt niður.